Ég er nýr

Velkomin í Fíladelfíu

Hvort sem þú íhugar að byrja að sækja kirkjuna eða vilt einfaldlega kynna þér málin, þá bjóðum við þig velkomin. Viljir þú hafa samband við okkur er síminn á safnaðarskrifstofu 535-4700 og netfangið filadelfia@filadelfia.is
Við viljum vera kirkja þar sem helst allir geta fundið sig heima. Þess vegna bjóðum við upp á starf fyrir ólíka hópa sem miðar að því að byggja upp gefandi samfélag þar sem trú fólks fær að eflast og vaxa.


Á sunnudögum fara fram fjórar samkomur, klukkan 11 er samkoma á íslensku í aðalsal kirkjunnar og boðið er upp á barnastarf, boðið er upp á túlkun á ensku gegnum heyrnartól. Klukkan 13 er samkoma á spænsku í kjallara kirkjunnar, klukkan 14 er samkoma á ensku í aðalsal kirkjunnar og boðið er upp á barnastarf. Klukkan 20 er kvöldsamkoma í hliðarsal kirkjunnar, gengið er inn um aðalinngang.

Við leitumst við að taka vel á móti öllum á þeirra forsendum, við viljum að allir finni a þeir eru velkomnir en við reynum að vera ekki yfirþyrmandi. Vertu velkominn.
Við hverju á ég að búast á sunnudagsamkomu?

Samnefnari samkomanna sem eru á Sunnudögum er að samkomuformið er frjálslegt og ætti að henta flestum. Ekki er gerð krafa um sérstakan klæðaburð eða annað slíkt.


Sunnudagssamkomur eru yfirleitt 60-80 mínútur frá upphafi til enda. Þær einkennast alla jafna af söng, predikun og tækifæri til að fá fyrirbæn. Fólki er að sjálfsögðu frjálst að velja sér sæti hvar sem er í salnum og enginn sæti eru frátekin.

Í byrjun er yfirleitt sungið í um það bil 10 til 15 mínútur, þá er gert hlé til að biðja fyrir bænarefnum, lesa stuttan Biblíutexta og tilkynningar fylgja í kjölfarið. Mjög oft eru tekin samskot um þetta leyti, en kirkjustarfið er fjármagnað með gjöfum meðlima og gesta. Það er alls engin krafa gerð um að fólk gefi, allra síst gestir eða þeir sem eru að koma í fyrsta skipti. Þér er frjálst að gefa eða láta baukinn bara ganga áfram, hvort tveggja er algjörlega frjálst.


Eftir tilkynningar er sungið fram að predikun. Predikunin er 25-35 mínútur og fjallar um efni sem valið hefur verið fyrir þann dag. Oftast er tekið fyrir ákveðið efni sem fjallað er um í um það bil fjóra sunnudaga. Predikunin á að vera hagnýt, fjalla um málefni sem skiptir okkur máli og tengist daglegu lífi. Við viljum vanda undirbúningin svo að predikunin veki spurningar eða hugmyndir sem fylgja okkur inn í vikuna. Við leggjum mikla áherslu á að nota Biblíuna sem grunn í allar okkar predikanir, en einnig að tala um hana þannig að það sé ekki nauðsynlegt að hafa lesið hana til að predikunin nýtist. Ef löngun til að lesa hana vaknar við að hlusta á predikunina er það er það eitt merki þess að predikunin hafi verið góð.

Þegar predikunin er búin er þeim sem það vilja boðið að þiggja fyrirbæn meðan við syngum síðustu lögin. Fyrirbænin fer oftast fram í minni samkomusal til hliðar við aðalsalinn.  

Að samkomu lokinni er öllum boðið að þiggja kaffi og mjög oft veitingar í kaffisal kirkjunnar á jarðhæðinni.


Upplýsingaborðið

Á miðhæð kirkjunnar er upplýsingaborð sem er alltaf opið eftir samkomur á sunnudögum. Ef þú ert að koma í fyrsta skipti á samkomu hjá okkur bjóðum við þér að þiggja gjöf frá kirkjunni sem þú getur nálgast á upplýsingaborðinu.

Þar má einnig fá upplýsingar um hvað eina sem boðið er upp á í kirkjunni. Þar er hægt að skrá sig á námskeið og viðburði, gefa kost á sér í sjálfboðaliðastarf o.s.frv.

Upplýsingaborð

Geta allir orðið meðlimir?

Fíladelfía er auðvitað kirkja og kirkjur eru grundvallaðar á trúarafstöðu. Við erum samfélag fólks sem vill fylgja Jesú og byggja líf sitt á grundvelli Biblíunnar sem við trúum að sé Guðs orð.  Við álítum alla sem eiga sömu trú og við vera hluta af hinni stóru kirkjufjölskyldu.

Án þess að gera lítið úr hefðum annara eða gefa á nokkurn hátt í skyn að aðrir séu minna kristnir, þá förum við fram á að þeir sem vilji tilheyra okkar kirkju hafi tekið niðurdýfingarskírn. Við teljum það mjög skýrt í Biblíunni að  þegar talað er um skírn sé það skref sem fólk velur sjálft  eftir að það hefur eignast trú á Jesú Krist. Við trúum því ekki að skírnin geri okkur hólpin, þetta sé fyrst og fremst yfirlýsing um það sem hafi gerst í lífi hins trúaða og að viðkomandi vilji fylgja Jesú.
Í Nýja Testamentinu taldist fólk hluti af kirkjunni eftir að það tók skírn, við viljum einfaldlega fylgja því fordæmi. Það er ekki flókið að taka skírn, það er nóg að tala við prest eða skrifstofuna,
áður en skírn á sér stað fer fram skírnarfræðsla sem er um 1 klukkustund, ef viðkomandi á trú og ætlar að fylgja Jesú er ekkert því til fyrirstöðu að fá skírn. Skírn fer yfirleitt fram á morgunsamkomunni, oftast eru nokkrir sem skírast saman.

Félagslíf

Í kirkjunni er mjög fjölbreytt starf og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, hvort sem um námskeið eða hreint félagsstarf er að ræða.
Í kirkjunni er mikill fjöldi fólks allstaðar að úr samfélaginu og á öllum aldri.  Algengt er að fólk myndi góð vináttusambönd við annað fólk í kirkjunni.

Fjölbreytt starfsemi kirkjunnar skapar vettvang fyrir fólk að kynnast öðru fólki og mynda vináttutengsl.
Samfélagshópar eru starfræktir í kirkjunni, það eru fjölbreyttir hópar sem fólk í kirkjunni starfrækir, mjög oft á heimilum sínum.
Hóparnir hittast oft hálfsmánaðarlega, sumir mánaðarlega, fjalla um kennsluefni úr kirkjunni með samtali, biðja saman og kynnast.
Hægt er að óska eftir að komast í samfélagshóp gegnum skrifstofu kirkjunnar.

Hafðu samband - við viljum gjarnan heyra í þér. 

Fylltu út formið hér að neðan til að hafa samband