Hvítasunnukirkjan Fíladelfía

Það er fullkomnað

1. ,,Það er fullkomnað”, svo hrópar hann hátt,
hann, sem á Golgata dó.
Höfuð að brjósti sér hneigir hann lágt,
hæðir hann múgurinn þó.
Beiskur var hörmunga bikarinn hans,
bikar, sem tæmdur þó var,
þegar á höfðinu þyrnanna krans
þungan og sáran hann bar.

Kór: Þú hefir frelsað og endurleyst oss.
:,: Heiður sé þér! :,:
Mín vegna þoldir þú kvalir á kross,
kóngur og frelsari minn!

2. Líða til Guðs upp að ljósanna stól
lausnarans andvörp svo djúp.
Björgin, þau klofna og sveipuð er sól
svartnættis grátmyrkum hjúp.
Saklaus á Golgata Guðs sonur dó,
Guð hefir miskunnað oss.
Sannlega hljótum vér frelsi og fró
fyrir hans dauða á kross.

3. ,,Það er fullkomnað”, svo hrópaði hann,
hér sem vor læknaði mein.
Fossandi árstraumur aldanna rann,
orð þessi lifa þó hrein.
Lindin, sem streymir frá lausnarans kross,
læknar hvert einasta sár.
Bak við hið helkalda húm ljómar oss
Himinninn fagur og blár.

Höfundur óþekktur -  Sigurbjörn Sveinsson.

Hljóðdæmi